20070912

Léleg!

Rosalega byrjum við illa með þetta blogg!


Maður hefur bara einhvernveginn ekki lagt í það að koma því af stað, þar sem það er svo margt annað um að hugsa í öllum þessum flutningum og breytingum.


En nú er allt farið að smella saman, rúmið komið og sófinn, og sjónvarpið og fötin kominn að mestu leiti inn í skáp (lítill skápur, torgar ekki öllum flíkunum...) og þá getum við hafist handa við að koma af stað netlífinu okkar.


Nú verða sagðar fréttir.


Fodedgården 9, 1 th
2200 Köbenhavn N
Hér búum við.
Íbúðin er æðisleg, risastórir gluggar, rúmgott eldhús (æði þar sem ég er komin með eldunarbakteríu), stofan og svefnherbergið smellpassa utan um nýju húsgögnin.. og svo er baðherbergið frááábært. Málið er að þetta er svona "Ældrebolig" sem þýðir - já - við erum flutt inn á elliheimili.


Það þýðir líka að allar hurðir eru ekstra stórar til að hjólastólar komast þar í gegn... og þessvegna er baðherbergið líka svona stórt - við með risa handföng hliðina á klósettinu og sturtunni, sem eru alveg kjörin vilji maður halla sér aðeins á meðan náttúran sér um sig.


Sófakartöflur!

Þetta er nýji sófinn okkar.

Við vorum fyrst í örgustu vandræðum með að finna sófa því okkur vantaði einhvern sem myndi henta okkur en einnig gestunum okkar = svefnsófi. Svefnsófar eru dýrir, og oftast hvorki sérstaklega flottir né þægilegir.

Eftir tvær árangurslausar ferðir í IKEA var komið að því að flytja inn í nýju íbúðina, en fram að því höfðum við fengið að vera í stúdíóíbúðinni hennar Sigríðar (já ég kallaði þetta stúdíóíbúð og þú getur ekki tekið það til baka ! ).

Við vorum samt ekki með neitt til að sofa á, þar sem við höfðum ekki getað komist að neinni niðurstöðu með svefnsófann. Við drifum okkur því niður í bæ til að kaupa vindsæng sem við gætum verið með til bráðabirgða. Það hinsvegar vildi svo skemmtilega til að við fundum þessa svakalegu vindsæng í Jysk, 50 cm á hæð og jafn stór og lítið hjónarúm, með rafmagnsuppblásara (velkomin á 21. öldina;), og bara mjög þægileg til legu.

Til að gera langa sögu stutta þá fleigðum við því svefnsófahugmyndinni niður ruslrennuna og fundum okkur í stað sófa sem okkur langaði meira í ...og kostaði mun minna :)


Við erum bæði búin að kaupa okkur hjól:-D


Mitt hjól er svona "Damecykel" með körfu og fiðrildahljóði og góðri lykt (..eða amk með körfu), og hjólið hans Jóns er stórt og hraðskreitt og svart.


Myndin hér að ofan er úr hjólatúr sem við tókum um daginn í kringum Amalíenborg höll að ég held.


Það er frábært að vera á hjóli hérna, maður fær mikla hreyfingu út úr því og er fljótur að fara út um allt. Það versta er kannski vindurinn, t.d. fór ég áðan út í búð til að kaupa í súpu fyrir Jón, sem er veikur - ég skellti mér bara í stígvélin og vestið mitt og dreif mig af stað.
Ég var í pilsi sem nær alveg niður fyrir hné, er oft búin að hjóla í því - en heppnin var ekki með mér. Þegar ég var að hjóla yfir gatnamót Jagtveg og Tagensveg (stóór gatnamót) þá fauk pilsið upp á bringu, og sú hugsun flaug eins og elding í gegnum hausinn á mér að ég hefði nú átt að fara í sokkabuxur.

Engin slys urðu sem betur fer á fólki, en ég held að ég hafi bjargað deginum fyrir nokkrum.
Ég held ég muni fara huldu höfði næstu dagana.
Það verða ekki fleiri fréttir að sinni, ég er að vinna að því að setja upp myndasíðu, ef þið vitið um góðar myndasíður sem ég get búið til aðgang á, þá endilega látið mig vita.
Ciao - súpan bíður!