20071126

Skattar

Í kjölfar frétta um beitungu George Bush á neitunarvaldi vegna fyrirhugaðra breytinga á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, fór ég að skoða skattakerfið þeirra.

Það er ekki auðvelt.
Ég leitaði hátt og lágt, googlaði og komst svo inn á IRS síðuna, eða "skattstofu" Bandaríkjamanna.
Þar er að finna ýmsar upplýsingar og enn fleiri eyðublöð, hvert öðru flóknara... en engar tölur.
Í raun og veru skil ég ekki hvernig í ósköpum eðlileg manneskja getur fyllt út skattframtalið sitt þarna - þrátt fyrir gífurlegar gáfur mínar þá átti ég erfitt með einu sinni að vita hvar maður ætti að skrifa nafnið sitt!

Sjá dæmið hér að neðan, þetta er eitt einfaldasta eyðublaðið:
http://www.irs.gov/pub/irs-pdf/f1040.pdf

Síðan missteig ég mig inn á Wikipedia, og þá fór ég loksins að nálgast markmiðið.
Þar voru tölur yfir skatta í m.a. UK, Ástralíu ...og að sjálfsögðu USA.

Þetta minnti mig dálítið á málið með The Bradley, bardagatólið úr The Pentagon Wars (algjör must-see mynd).
Ástæðan er sú að sama hringavitleysan virðist hafa gerst í uppbyggingu skattakerfisins.

Það virðist vera að einhver starfsmaður skattsins hafi fyrir 40 árum búið til eyðublað. Síðan kom aðili númer tvö og fannst þetta voða sniðugt, en það væri enn sniðugra að bæta við reit fyrir heimilisköttinn, setjum hann bara ...emm...þarna á milli (strok strok, strika yfir, krot krot).

Síðan kom sá næsti.
Nr 2"Já, þetta er ágætis plagg, en nú ætlum við að skattleggja barnabætur til að eiga fyrir lágmarks heilbrigðisþjónustu"
Grafískur hönnuður: "En það er ekki pláss þarna, eigum við ekki bara að búa til einfalt fylgirit sem þarf að fylla út ef við á?"
Nr 2: "Nei! Það gengur ekki, vippaðu þessu bara þarna á milli, og settu bara ör sem bendir þangað, já og neðanmálsgrein til að koma fyrir smáa letrinu, já og hafðu eina punktalínu hér, en ég vil ekki hafa punktalínu í næstu grein, þar vil ég hafa... emm... ör og kassa!"

Og svona hélt það áfram næstu 40 árin, þar til skattarnir voru komnir "niður í" 35%, búið var að leggja niður heilbrigðisþjónustuna, og einfaldasta eyðublaðið var komið í 76 liði, þar af suma með 3-4 undirliði.
Þetta er orðið eins og með kosningaeyðublöðin, þú þarft að vera með háskólapróf til að skilja það, og jafnvel þótt þú gerir þitt besta til að svara rétt, þá endarðu með vitlausan forseta, skattinn á hælunum og ógreiddann VISA reikning - og þegar stressið leiðir til hjartaáfalls þá er það eina að biðja til guðs, því spítalinn tekur ekki við þér, skuldugum manninum.

Voru ekki Bandaríkjamenn á móti skattlagningu, er það ekki ástæðan fyrir að ekki er hægt að vera með velferðarkerfi né halda úti almennilegu opinberu skólakerfi?
En hvað veit ég, litli skandinavíubúinn sem borga heil 38% í skatta og þarf að lifa við það ófrelsi og kúgun sem fylgi ókeypis heilbrigðisþjónustu, ókeypis skólum, og svo framvegis. Þetta jaðrar við...þori ég að segja það, bera fram nafn kölska?.... sósíalisma... NEEEEEIIIIII!!!!

Ég ætla samt að láta mig hafa það, vegna þess að það er svo skemmtilegt að hjóla hérna úti í Danmörku.

Enn og aftur - ég mæli með Pentagon Wars, see it or be it..